Lög Landvarðafélags Íslands

1. grein
Félagið heitir Landvarðafélag Íslands.
Félagið heitir á ensku The Ranger Association of Iceland.

2. grein
Heimili þess er Grettisgata 89, 105 Reykjavík, netfang landverdir@landverdir.is og veffang www.landverdir.is.

3. grein
Tilgangur félagsins er:

a. að vinna að hagsmunum félagsmanna og vera forsvarsaðili þeirra út á við,
b. að semja um kaup og kjör landvarða,
c. að marka stefnu landvarða í náttúruverndarmálum,
d. að svara erindum sem beint er til félagsins og vinna greinargerðir um náttúruverndarmál og að vinna að náttúruvernd og umræðu um hana.
e. að kynna stefnu þess út á við og vinna að framgangi hennar,
f. að kynna starf og hlutverk landvarða,
g. að stuðla að fræðslu og símenntun landvarða,
h. að rækta tengsl við systursamtök erlendis,
i. að standa fyrir skemmtunum fyrir félagsmenn.

4. grein
Félagi í Landvarðafélagi Íslands getur orðið hver sá:

a. sem lokið hefur námskeiði til starfsmenntunar landvarða,
b. sem lokið hefur öðru því námi sem félagið metur gilt,
c. sem vinnur við eða hefur unnið landvörslutengd störf.

Þeir sem falla undir lið a) eiga sjálfkrafa rétt til aðildar en þeir sem falla undir liði b) eða c) þurfa að fá samþykki stjórnar félagsins.

Þau sem ekki uppfylla skilyrði a-c en vilja vinna að stefnu og lögum félagsins geta sótt um aukaaðild að félaginu. Aukaaðild veitir ekki atkvæðisrétt á aðalfundi.

5. grein
Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og samtök sem kjósa að styrkja félagið með fjárframlögum geta sótt um sérstaka styrktaraðild að félaginu til stjórnar. Hún metur hverja umsókn fyrir sig og ákveður hvort og þá hvernig styrktaraðild verður háttað.

6. grein
Heimilt er löglega boðuðum félagsfundi að vísa félögum úr félaginu ef fundurinn telur að þeir hafi brotið í bága við lög félagsins. Slík tillaga verður að njóta stuðnings minnst 2/3 atkvæða fundarmanna.

7. grein
Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjöld í tvö ár frá aðalfundi er stjórn heimilt að taka nafn hans af félagaskrá.

8. grein
Starfssvið stjórnar Landvarðafélags Íslands er:

a. að kynna stefnumál og starfsemi félagsins og vera andlit þess út á við,
b. að halda úti vefsíðu um málefni félagsins,
c. að marka stefnu félagsins í náttúruverndarmálum og vinna að henni með öðrum félögum og stofnunum,
d. að bera ábyrgð á fjárreiðum félagsins,
e. að ganga frá ákvörðun um trúnaðarmenn fyrir komandi sumar,
f. að samþykkja inngöngu nýrra félagsmanna,
g. að hafa yfirsýn yfir starfsemi nefnda á vegum félagsins,
h. að efla áhuga félagsmanna á starfsemi félagsins og metnað þeirra fyrir hönd þess.

9. grein

Á vegum félagsins starfa fastanefndir. Kosið er um alla meðlimi þeirra til
eins árs í senn og þeir skipta með sér verkum. Aðalfundi og/eða stjórn er heimilt að víkja frá tilgreindum fjölda nefndarmanna ef þurfa þykir. Nefndirnar eru:

a. Kjara- og laganefnd, sem í eru 3 félagar og tveir til vara. Hlutverk hennar er að semja við vinnuveitendur um kaup og kjör landvarða, auk
þess að yfirfara lög félagsins fyrir aðalfund ár hvert.
b. Fræðslu- og skemmtinefnd, sem í eru 3 félagar. Hlutverk hennar er að sinna fræðslu  og upplýsingamiðlun til félagsmanna, sem og að
skipuleggja skemmtanir félagsins.
c. Alþjóðanefnd, sem í eru 3 félagar. Hlutverk hennar er að halda utan um samskipti við erlend samtök landvarða og sjá til þess að miðla áfram efni er frá þeim berst til annarra félagsmanna.

10. grein
Á aðalfundi hvert ár skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga, sem ætlað er að yfirfara reikninga félagsins. Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember.

11. grein
Stjórn félagsins boðar til félagsfundar þegar henni þurfa þykir, eða ef minnst 15 félagsmenn óska þess. Félagsfundir skulu boðaðir með minnst 3 daga fyrirvara og skal þá miðað við póststimpil og/eða dagsetningu tölvupósts. Dagskrár skal getið í fundarboði.

12. grein

a. Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en 10. apríl ár hvert. Skal stjórn boða til hans bréflega, með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara. Til félaga með virkt netfang má boða rafrænt og sendist þá ítrekun viku fyrir aðalfund. Í fundarboði skal birta dagskrá fundarins ásamt lögum félagsins. Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins og telst löglegur, ef löglega er til hans boðað.


b. Dagskrá aðalfundar er:

1.  Setning aðalfundar og kosning fundarstjóra.
2.  Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
3.  Endurskoðaðir reikningar lagðir fram og umræður um þá.
4.  Lagabreytingar.
5.  Ákvörðun félagsgjalda.
6.  Kosning stjórnar.
7.  Kosningar í nefndir og kosning endurskoðenda.
8.  Önnur mál.

c. Stjórn félagsins er skipuð 5 félögum, auk tveggja varamanna. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega. Formaður er oddviti stjórnar og stýrir fundum hennar. Í samráði við stjórn ber formaður ábyrgð á að starfsemi félagsins fari samkvæmt lögum. Varaformaður sinnir forystustörfum með formanni og gegnir störfum formanns í forföllum hans. 

Stjórnarmeðlimir skipta með sér hlutverkum ritara, gjaldkera og meðstjórnanda. Ritari sér um ritun fundargerða á stjórnarfundum. Gjaldkeri er ábyrgur fyrir fjárreiðum félagsins. Meðstjórnendur sinna öðrum verkum sem stjórn ákveður. Stjórn skal á fyrsta fundi sínum skipta með sér verkum og setja sér skriflegar verklagsreglur til að vinna eftir.

Stjórn er kosin til tveggja ára í senn, þannig að eitt ár er kosið um formann og tvo stjórnarmeðlimi og annað ár um varaformann, einn stjórnarmeðlim, auk tveggja varamanna. Kosningarétt og kjörgengi hafa allir skráðir félagsmenn. Til að hljóta kosningu nægir frambjóðanda einfaldur meirihluti. Hverfi stjórnarmeðlimur frá störfum, skal stjórn velja annan varamanna til að taka sæti í henni fram að næsta aðalfundi. Að svo búnu skiptir hún með sér verkum á ný. Hverfi formaður frá störfum skal varaformaður taka sæti hans.
d. Ályktanir aðalfundar teljast samþykktar, ef einfaldur meirihluti fundarmanna styður þær.
e. Lagabreytingatillögur skulu berast stjórn eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar í fréttabréfi sem sent er út (miðað við póststimpil og/eða dagsetningu tölvupósts) eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Í því fréttabréfi skal einnig kynna fundarstað og tíma. Minniháttar breytingatillögur, að mati aðalfundar, er hægt að bera upp á fundinum og fá afgreiddar. Lagabreytingatillögur skulu studdar af 3/4 fundarmanna til að hljóta samþykki.

13. grein
Félagið getur með samþykki löglega boðaðs félagsfundar sótt um eða sagt upp aðild að sérsamböndum eða bandalagi, enda greiði a.m.k. 2/3 fundarmanna slíkri tillögu atkvæði. Tillaga um slíkt skal kynnt félagsmönnum bréflega minnst viku fyrir fund.

Lög þessi voru samþykkt með breytingum á aðalfundum félagsins þann 10. mars 2005, 7. mars 2007, 12. maí 2012 , 17. mars 2021 og 9.mars 2024.