-
Aðalfundur Landvarðafélags Íslands haldinn 10. apríl s.l. lýsir áhyggjum sínum vegna fyrirhugaðra breytinga á rekstrarformi Náttúruverndar ríkisins, sbr. frumvarp til laga um Umhverfisstofnun (þskj. 1170 — 711. mál.). Sú hætta er fyrir hendi að breytt skipan mála leiði til samdráttar er kunni að koma illa niður á landvörslu. Ef til fyrirhugaðra breytinga kemur förum við þess á leit við umhverfisráðherra að stofnuð verði sjálfstæð deild í hinni nýju stofnun sem sinni landvörslu, friðlýstum svæðum og þjóðgörðum til að tryggja áframhaldandi og bætta starfsemi þar að lútandi.
Greinargerð: Fyrirhuguð Umhverfisstofnun mun taka yfir rekstur Hollustuverndar Ríkisins, Náttúruverndar ríkisins og Embættis veiðistjóra, auk starfsemi Hreindýraráðs og Dýraverndarráðs. Landvarðafélag Íslands óttast að slík sameining geti leitt til þess að landvarsla og málefni henni tengd fái minna vægi en nú, enda kannski eingöngu um lítinn málaflokk að ræða í svo stórri stofnun. Eins og er hefur Náttúruvernd ríkisins 140 milljónir til ráðstöfunar, sem er engan veginn nægilegt fjármagn til að sinna öllum þeim málefnum sem stofnuninni ber og teljum við að landvarsla hafi meðal annars liðið fyrir það. Flestir þeir sem til landvörslu þekkja vita að fremur er þörf á að efla málefni henni tengd heldur en að draga þar saman seglin. -
Aðalfundur Landvarðafélags Íslands haldinn 10. apríl s.l. lýsir áhyggjum sínum yfir því hvernig horfir um landvörslu í framtíðinni. Það er ekki launungarmál að fremur var þörf á aukinni landvörslu en þeim niðurskurði sem fyrirhugaður var sbr. auglýstar stöður landvarða hjá Náttúruvernd ríkisins fyrir sumarið 2002. Landvarðafélag Íslands skorar á stjórnvöld að sjá til þess að Náttúruvernd ríkisins verði gert kleift að sinna landvörslu sem skyldi í komandi framtíð.
Greinargerð: Erlendum ferðamönnum fjölgar ár frá ári á Íslandi. Árið 1990 voru þeir rúmlega 140.000 og árið 2000 var fjöldi þeirra um 300.000 einstaklingar. Landvörðum hefur á þessu tímabili vissulega fjölgað, eins og sést þegar skoðaðar eru tölur um vinnuvikur landvarða; árið 1990 reyndust þær 170 talsins og árið 2000 323 og er fljótséð hversu hróplegt ósamræmi er þarna á milli og hversu illa það kemur niður á náttúru landsins, einu helsta aðdráttarafli erlendra ferðamanna. Keppst er við að laða ferðamenn hingað til lands og hafa stjórnvöld lagt umtalsverðar upphæðir fram til þess, en talsvert vantar upp á að jafnframt sé nægjanlega hugað að því að vernda þau svæði sem vinsælust eru. Reynslan sýnir að betur má ef duga skal varðandi markvisst skipulag og umönnun fjölsóttustu svæðanna. Í úttekt OECD frá 2001 um stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi er fjölgun landvarða talin mikilvæg, til að stemma stigu við því mikla álagi sem náttúra landsins er undir. Við óttumst að þolmörkum náttúrunnar á ákveðnum svæðum sé þegar náð og að grípa verði inn í gang mála ef við ætlum að tryggja varðveislu ýmissa af okkar kærustu náttúruperlum. Landverðir hafa í gegnum tíðina sinnt þessum hlutverkum á völdum stöðum, auk þess að sinna fræðslu og upplýsingagjöf og því þarf engum að blandast hugur um það hversu mikilvægt það er að efla landvörslu og málefni henni tengd.
Nánari upplýsingar gefa: Hildur Þórsdóttir, formaður Landvarðafélags Íslands, s. 552-9776 / 863-2271
og Friðrik Dagur Arnarsson, s. 562-1998 / 822-2205.
og Friðrik Dagur Arnarsson, s. 562-1998 / 822-2205.