gloggolfurJæja, nú er komið að því, JÓLAGLÖGGINU góða sem alla þyrstir í. Boðið verður upp á ylvolgt glögg að hætti hússins og hafa landverðir safnað í skjólu sína náttúruafurðum ýmiss konar til að glæða glöggið lífi.
Hrafnhildur Hannesdóttir byrjar á að svala fróðleiksfýsn landvarða og býður okkur upp á myndasýningu frá Svalbarða, þar sem hún dvaldist um tíma.
Eins og allir vita hafa landverðir skemmt landanum og öðrum farfuglum sumrin löng og þykja bæði skemmtilegir og miklir skemmtikraftar. Finnst Landvarðafélaginu kominn tími til að landverðir skemmti landvörðum og má því búast við óvæntum uppákomum.
Glöggið verður haldið föstudaginn 20. desember n.k. og byrjar gleðin klukkan 2000. Hinir gestrisnu landverðir Hanna Kata og Guðrún hýsa veisluna, sem verður haldin að Birkimel 10b, 3. h.t.v. Veigarnar kosta einungis kr. 700.  Við bjóðum starfsfólk á skrifstofu Náttúruverndar ríkisins sérstaklega velkomið.
Látum ekki góða stund og guðaveigar úr greipum renna. Sjáumst hress og kát að vanda.
Nefndin

Nú eru flestir þeir sem unnu sem landverðir í sumar komnir af fjöllum og teknir til við önnur störf eða nám. Sumarævintýrin í faðmi náttúrunnar að baki og tími til kominn til að hitta aftur kollegana á mölinni. Það bregst heldur ekki að með lækkandi sól og litaskrúði haustsins færist nýtt líf í félagsstarfið hjá okkur landvörðum. Fyrir dyrum standa bæði nú bæði haustferð og haustfundur. Auk þess er hausthefti fréttabréfsins Ýlis komið út.

Haustferðin er fyrirhuguð 12. okt. og er ætlunin að aka í Hveragerði og ganga um Grændal og Reykjadal. Þar er mikill jarðhiti og heitar laugar við hvert fótmál. Sameiginleg kvöldvaka verður í sumarbústað Dagnýjar Indriðadóttur að göngu lokinni. Nánar er sagt frá ferðatilhögun í Ýli. Helgina eftir, föstudaginn 18. okt. kl. 20:00, verður svo blásið til haustfundar Landvarðafélagsins. Safnast verður saman heima hjá formanninum, Hildi Þórsdóttur, Frakkastíg 20, og rabbað um það sem á dagana dreif á nýliðnu sumri. Ekki er ólíklegt að margt krassandi beri á góma og að fundinum verði fram haldið á einhverju af öldurhúsum bæjarins...
Setjið ykkur í stellingar fyrir tvær góðar helgar í október.

Vistun lénsins og heimasíðunnar landverdir.is hefur nú verið færð yfir til Hringiðunnar Internetþjónustu. Vefurinn hefur hingað til verið hýstur á vefþjóni Náttúruverndar ríkisins og þakkar Landvarðafélagið hér með starfsmönnum stofnunarinnar kærlega fyrir velvild og gott samstarf. Jafnframt væntir félagið góðs af samvinnu við Hringiðuna. Ástæða er til að hvetja félagsmenn til að kynna sér þjónustu fyrirtækisins, t.d.  hvað varðar ADSL-lausnir.

Page 1 of 3

RSS Áskriftir

Hafa samband

Fyrirspurn til Landvarðafélags Íslands

 

 

Hafa samband