Í tilefni 40 ára afmæli Landvarðafélags Íslands

Í tilefni af 40 ára afmæli Landvarðafélags Íslands birtist eftirfarandi grein í Morgunblaðinu 10. nóvember síðastliðinn.

 

Landvarðafélag Íslands 40 ára

Ein af fyrstu íslensku heimildunum þar sem orðið „landvörður“ kemur fyrir er í tímaritinu Fróða frá árinu 1882, þar sem sagt er að landvörður eigi að koma í stað hinna fornu landvætta.

Í dag eru um 200 félagar skráðir í Landvarðafélag Íslands sem er hagsmunafélag landvarða og forsvarsaðili þeirra. Nær eingöngu er um að ræða sumarstörf og hafa verið um 70 starfandi landverðir síðastliðin sumur. Félagið var stofnað 1976 og heldur því upp á 40 ára afmælið sitt á þessu ári. Þann 9. nóvember 1976 mættu 16 manns á stofnfund hagsmunafélags Félag gæslumanna, Ferðafélags Íslands og Náttúruverndarsinna. Stofnfélagarnir voru áhugasamir einstaklingar um útivist og náttúru sem starfað höfðu við skálavörslu og landgæslu á friðuðum svæðum. Fjórum árum síðar var einróma samþykkt á aðalfundi að breyta nafni félagsins í Landvarðafélag Íslands.Í gegnum tíðina hafa baráttumálin nánast verið hin sömu. Launakjör landvarða eru ofarlega á baugi sem og vinnuaðstaða og aðbúnaður. Mörg baráttumál tengd náttúruvernd og umgengni um náttúruna hafa ávallt verið landvörðum hjartans mál. Margir einstaklingar hafa starfað sem landverðir frá stofnun félagsins 1976 en starf þeirra í náttúru Íslands og fyrir félagið er og hefur verið afar dýrmætt.

Margir velta því eflaust fyrir sér hvað landverðir gera? Þeir vinna m.a. í þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og á öðrum náttúruverndarsvæðum. Fjölbreytileikinn einkennir starf þeirra og er fræðsla til gesta einn af mikilvægustu þáttum starfsins, ásamt eftirliti með umgengni og umferð fólks. Viðhald og merking göngustíga eru einnig á könnu landvarða og spilar öryggisþátturinn líka stórt hlutverk, t.d. vara landverðir við hættum og setja upp viðeigandi merkingar. Starfið er margþætt og þótt oft á tíðum virðist bera mest á ruslatínslunni (hafa landverðir ekki farið varhluta af að tína upp klósettbréf og annan ófögnuð) þá er það langt í frá það eina sem landverðir gera. Meginhlutverk landvarða er að vernda náttúruna og gæta þess að náttúruverndarlögum sé fylgt.

Landverðir út um allan heim vinna í grunninn að því sama, að vernda og fræða. Starfið er mishættulegt eftir landsvæðum og geta þeir t.d. þurft að takast á við veiðiþjófnað og hættulegt dýralíf.

Sérstaða landvarða á Íslandi í hinum alþjóðlega heimi landvörslunnar er að við höfum mun fleiri kvenkyns landverði en víðsvegar annarsstaðar í heiminum. Vekjum við því oft athygli á alþjóðlegum ráðstefnum landvarða fyrir hversu hátt hlutfall íslenskra landvarða eru konur. Hin sérstaðan, sem er ekki alveg jafn jákvæð, er að landvarsla á Íslandi er nánast eingöngu sumarstarf. Í flestum löndum er heilsárslandvarsla og því hægt að starfa við hana á ársgrundvelli og velja sem starfsgrein. Hér áður fyrr komu fáir ferðamenn yfir vetratrímann og var þá ekki mikil þörf fyrir landvörslu á þeim tíma. Í dag er breytt landslag, hver mánuður er metmánuður í komu ferðamanna til landsins. Til að bregðast við nýju landslagi er ljóst að breytinga er þörf. Brýnt er að bregðast við sem fyrst svo náttúran láti ekki meira á sjá en orðið er, breyta þarf stöðugildum landvarða úr sumarstörfum í heilsársstörf sem allra fyrst og engan tíma má missa. Einnig þarf að fjölga sumarstöðugildum yfir háannatímann. Fáir geta bundið sig í sumarstarfi ár eftir ár og þar af leiðandi hverfur þekking á brott með reyndum landvörðum þegar þeir neyðast til að fá sér heilsársvinnu. Ef landvarslan verður heilsársstarf þá helst dýrmæt þekking innan hvers svæðis.

Við öll þurfum að opna augun fyrir því að hlúa þarf að landinu og gæta að sérstöðu þess, náttúrunni og umgengni við hana. Með öllum þessum fjölda sem ferðast um landið okkar þá stöndum við frammi fyrir breyttum tímum þar sem stýra verður umferð fólks, hafa eftirlit með viðkvæmum svæðum og vera með öfluga fræðslu.

Linda Björk Hallgrímsdóttir, formaður Landvarðafélags Íslands

 

.